Ég er mjög hrifin af munstrunum hennar Laura Heine og fyrir ein jólin keypti ég munstur af Snjókúlu með jólasenu.
Munstrin frá Laura eru unnin öðruvísi en fugla myndirnar. Í staðinn fyrir að sauma hvert stykki saman þá er notast við límvef sem er límdur aftan á efni. Við vinnslu á þessu verki saumaði ég ekki saman bakgrunninn eins og ég geri í kaktusaverkinu, heldur þá er ég með næfurþunnt efni sem ég ég legg yfir munstrið og klippi síðan út efnið sem ég er búin að setja límvefinn aftan á. Síðan smá saman byggi ég upp myndina með t.d. húsum sem eru klippt úr alls konar efnum, og fígúrum og hlutum sem ég klippu út úr munstuðum efnum. Saman myndar þetta svona eina heild. Hér sést verkið þegar það var enn í vinnslu.
Hér er það svo tilbúið.
Ég var mjög sátt með útkomuna, en langaði alltaf að gera persónulegt tvist á það af því að ég á mjög erfitt með að fylgja munstrum annarra og er alltaf að leita leiða til að þróa tæknina og setja mitt mark á verkið.
Því prófaði ég árið eftir að gera svipað verk en með myndum af húsum sem tengjast Hrísey. Ég ólst upp í Hrísey og foreldrar mínir búa þar ennþá í húsinu sem þau byggðu þegar ég var lítil. Í Hrísey býr líka systir mín ásamt fjölskyldu svo ég setti húsin þeirra og húsið við hliðina á mömmu og pabba, því þar ráku þau gistiheimili í nokkur ár. Svo fékk kirkjan að fylgja með líka.
Hér er verkið í vinnslu.
Stundum tek ég myndir af verkinu og breyti henni í svart hvíta mynd til að sjá betur hvernig myndin kemur út. Það hjálpar mér að sjá hvar litir eru of dökkir eða ljósir og ef það eru svæði sem ég þarf að huga betur að.
Loka niðurstaðan var svo þetta stórglæsilega jólateppi sem við hengjum upp á aðventunni ár hvert.