Marglitur mars Listasýning

Helgina 13. - 14. apríl 2024 verður listasýningin Marglitur mars haldin á vegum Einhverfusamtakana. 

Hér er hlekkur á viðburðinn á Facebook og þar er hægt að nálgast allar upplýsinar: (2) Marglitur mars listasýning | Facebook

Ég verð ein af við listamönnunum sem mun sýna verk á sýningunni og því ákvað að ég að setja saman smá blogg póst um bútasaumsverkin mín og hvað listsköpun þýðir fyrir mig. 

Ég hef alltaf verið forvitin og skapandi. Frá því að ég var lítil stelpa hef ég sýnt ýmsum listformum áhuga og hef í raun áhuga á að læra nýja hluti og tækni. Ég held að það sé partur af taugaþroskaröskun minni, en ég er bæði greind á einhverfurófinu og með ADHD. Þetta er mjög forvitnileg blanda og hjá mér kemur hún fram í mjög mikilli innri starfsemi, þannig að ég er ekki hlaupandi og skoppandi út um allt, en inn í mér er alltaf eitthvað í gangi. Þangað til ég byrjaði á ADHD lyfjum fyrir nokkrum árum hélt ég allir væru með 20 mismunandi hugsanir á mjög fjölbreyttum uppruna í gangi í einu, jafnvel á meðan ég horfði á sjónvarpið, átti í samtali við einhvern og var að borða. Stundum var það mjög yfirþyrmandi og ég þurfti að loka mig af til að róa hugann niður og núlla út skynúrvinnslu vanda. Önnur birtingarmynd er áhuga á að læra og þróa tækni, því einhverfi heilinn minn er alltaf að safna gögnum og reyna að bæta umhverfið sitt, eða ferla sem hann verður var við alls staðar. Það áhugaverða er að þegar ég er að fylgjast með umhverfinu eða gera eitthvað þá er heilinn á mér í bestunarferli á sjálfstýringu og ég eyði engri orku í að leita að bestu leiðinni til að leysa vanda sem aðrir jafnvel sjá ekki. Þetta er sjálfvirkt hjá heilanum mínum og mætti jafnvel kalla það áhugamál, því mér finnst það mjög gaman. Mér finnst líka mjög gaman þegar ég næ að nýta þennan eiginleika í daglegulífi, sérstaklega í listsköpun. 

Í þrítugsafmælisgjöf, nokkrum dögum áður en ég átti eldri dóttur mína, bað ég um pening til að kaupa mér saumavél. Mamma mín og föðuramma eru miklar fyrirmyndir í minni listsköpun og þegar ég ólst upp var mikið saumað í kringum mig. Fram að þrítugu þá hafði ég mörg áhugamál sem má líta á sem listsköpun og flakkaði mikið á milli, teikna, sauma út, prjóna, hekla, mála ... ég var mis góð í  þeim, en sameignlegt með þeim var að ég þar ég fæ nýtt áhugamál þá kafa á mjög djúp, sem getur stundum verið dýrt. Þegar ég keypti saumavélina ákvað ég að ég myndi reyna að halda mig við sauma og mér hefur tekist það nokkurn vegin. Þetta þýðir að ég vernda saumaskapinn minn vel fyrir sjálfri mér og öðrum. Ég leyfi mér ekki að kafa mjög djúpt í önnur áhugamál og ef ég er ekki "í stuði", t.d. vegna fjölskylduaðstæðna, þá koma oft tímabil þar sem ég sauma ekki í nokkra mánuði. Þetta geri ég til að passa að ég "fái ekki ógeð" á saumaskapnum mínum. Þetta hefur hjálpað mér mikið síðasta áratuginn. Bútasaumurinn minn er mín leið til hugleiðslu en ég get líka gleymt mér í marga klukkutíma og náð að dífa mér mjög djúpt inn í ánægjuna sem saumaskapurinn gefur mér. 

Undanfarin ár hef ég mikið unnið með fuglamyndir í bútasaum. Ég fékk ótýbíska lungnabólgu sem var af völdum ónæmrar bakterísýkingar. Það tók nokkra mánuði að ná þessu góðu og á því tímabili var ég rúmliggjandi í nokkrar vikur. Ég hafði ekki orku í neitt og varð móð við að tala, sem er mikill ókostur fyrir mig þar sem ég tala mikið. Ég gat ekki einu sinni horft á sjónvarp sem  hefur alltaf verið eitthvað sem ég geri mikið af en ég náði einhvern vegin ekki að halda þræði. En þegar ég var að byrja að jafna mig fann ég áhugavert bútasaumsnámskeið frá bandaríkskri konu sem heitir Timna Tarr sem kenndi mosaic bútasaumsmyndir. Ég sleppti að sjálfsögðu prufu verkinu sem hún mældi mér og fór beint í að leita af mynd af páskaunga á netinu þar sem páskarnir nálguðust og byrjaði þar. Það er svolítið dæmigert fyrir mig, ég á erfitt með að fylgja uppskriftum og fyrirmælum, og nenni engan vegin að gera eitthvað prufuverk sem mig langar ekkert að eiga, ef ég ætla að gefa mér tíma í að gera þetta vil ég fá útkomu sem ég er sátt við og vil eiga sjálf!

Ótrúlegt en satt þá hjálpaði þessi litli páskaungi mér í batanum. Ég gat lítið annað gert en af því að ég fæ orku úr bútasaumnum í stað þess að eyða orku í það, og það sama má í raun segja um að læra nýja hluti og þróa áfram aðferðir, þá gat ég gert eitthvað skemmtilegt meðan ég gat ekki gert mikið meira en að liggja í rúminu eða sitja í hægindastól og glápa út í loftið. 

Mér fannst þessi aðferð mjög heillandi og ég hef að mestu haldið mig við hana síðan, en að sjálfsögðu notað aðrar aðferðir inn á milli, annars myndi ég missa áhugann alveg. 

Á sýningunni eru nokkur bútasaumsverk sem ég hef ger á mismunandi tíma og ég hlakka mikið til að sýna fólki afraksturinn og list mína. Mér hefur oft þótt erfitt að kalla bútasauminn minn list og hef átt mjög erfitt með að taka hrósi, en ég er að venjast því og að pína mig í gegnum það til að geta deilt honum með öðrum, því mér finnst það mjög skemmtilegt. 

Ég læt þetta duga í bili, en mun skrifa annað blogg um sýninguna sjálfa og jafnvel bæta við einhverjum myndum. 

Back to blog