Eitt haustið fyrir nokkrum árum fór ég að taka sérstaklega eftir sveppum út um allt. Ég veit ekki hvort það var bara ég sem fór að taka eftir þeim eða hvort það voru sérstaklega margir sveppir þetta haust. Ég alla vega sá þá út um allt og fór að taka myndir af þeim á símann minn í göngutúrum.
Þegar ég rúlla yfir myndirnar okkar á Google Photos frá þessu hausti þá eru hundruðir mynda af sveppum! Ég hreinlega fékk áráttu fyrir að taka myndir af sveppum. Þetta kemur stundum fyrir og ég er orðin mjög meðvituð um það núna í seinni tíð og reyni að passa mig og stoppa mig af því þetta getur tekið mikinn tíma og orku frá mér.
Á þessum tímapunkti var ég búin að gera nokkrar fugla mósaík bútasaumsverk og langaði að prófa að nota sömu tækni en hafa annað umfangsefni. Ég gerði því tvö verk byggða á myndunum mínum af sveppum.
Þetta var líka í fyrsta skipti sem ég notaði einlita efni í bakgrunninn. Mér fannst þetta svo skemmtilegt verkefni, en það var erfitt að ná einhverri dýpt í myndirnar og ég átti erfitt með að tengja við myndirnar því með fuglana þá er ég meðvituð um að þetta eru lifandi verur með blik í augum og þess háttar en með sveppina þá náði ég ekki þeirri tengingu.